Capacity Building – Mannauðsuppbygging

GRÓ - Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu samanstendur af fjórum skólum með sérstaka áherslu á að efla getu stofnana samtaka og einstaklinga í þróunarríkjum.

Skólarnir fjórir, Jafnréttisskólinn, Jarðhitaskólinn, Landgræðsluskólinn og Sjávarútvegsskólinn, sem starfa á Íslandi voru allir settir á laggirnar í þeim tilgangi að byggja upp mannauð í þróunarríkjum á sviðum þar sem fyrir hendi er íslensk sérþekking. Meginmarkmið skólanna er að stuðla að nýrri þekkingu, hæfni og lausnum í þróunarríkjunum sem nýtist til framfara, með áherslu á stjórnkerfi ríkjanna og stofnanir. Grunnur skólanna byggir því á hugmyndafræðinni um sjálfbæra þróun og framtíðarsýn heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra veröld.

Skólarnir fjórir hafa um áratugaskeið verið einn mikilvægasti þáttur í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Rekstur skólanna er að mestu leyti fjármagnaður af opinberum framlögum til þróunarsamvinnu Íslands. 

Í stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands segir að áfram verði lögð áhersla á að byggja upp færni einstaklinga og styrk stofnana í þróunarríkjunum með starfsemi Jafnréttisskólans, Jarðhitaskólans, Landgræðsluskólans og Sjávarútvegsskólans. Í stefnunni er einnig kveðið á um að leitast verði við að efla samlegðaráhrif skólanna fjögurra og samþætta starf þeirra öðru þróunarstarfi Íslands.

Í þróunarsamvinnu Íslands ber samkvæmt stefnu stjórnvalda að leggja áherslu á svið þar sem sérþekking Ísands getur nýst í baráttunni gegn fátækt og fyrir framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Tilgreind eru tvö meginmarkmið sem bæði tengjast starfsemi skólanna fjögurra.

Annað þeirra felst meðal annars í kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna í samræmi við heimsmarkmið nr. 5 og hitt lýtur að verndun jarðarinnar og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Þar eru áhersluatriði sem vísa í heimsmarkmið nr. 7, 14 og 15, aukin nýting jarðhita og annarra endurnýjanlegra orkugjafa; verndun og sjálfbær nýting hafs og vatna; og endurheimt landgæða og takmörkun landeyðingar.