Fréttir á íslensku

GRÓ ákvarðar áherslur og markmið í starfinu til ársins 2027

16 desember 2022
GRÓ ákvarðar áherslur og markmið í starfinu til ársins 2027

GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu hefur sett sér markmið og ákvarðað áherslur starfsins fram til ársins 2027. Skjalið fylgir aðferðafræði UNESCO við árangursstjórnun og skýrir hvernig unnið verður að því að ná markmiðunum sem sett eru fram í breytingakenningu GRÓ.

GRÓ stefnir að því að þjálfa 100 nemendur á Íslandi á hverju ári (25 hver þjálfunaráætlun) og halda 25 styttri námskeið á vettvangi eða netnámskeið árlega. Þá er markmiðið að veita 20 skólastyrki til framhaldsnáms árlega og framleiða a.m.k. fjögur netnámskeið. Einnig eru sett fram markmið um að vekja athygli á rannsóknum nemenda, efla stuðning og samstarf við fyrrverandi nemendur, vinna áfram að því að auka samlegð í starfi GRÓ, vekja athygli á starfi GRÓ innanlands sem utan og auka samstarf við erlenda aðila. Þá mun GRÓ kanna fýsileika þess að setja á fót þjálfunarmiðstöð á vettvangi og sjóð sem fyrrverandi nemendur geta sóst eftir fjárstyrkjum úr til að framkvæma verkefni.

GRÓ starfrækir fjórar þjálfunaráætlanir á Íslandi, þ.e. Jafnréttisskóla, Jarðhitaskóla, Landgræðsluskóla og Sjávarútvegsskóla. Starfið byggir á yfir 40 ára færsælli sögu en GRÓ tók til starfa árið 2020 og starfar undir merkjum UNESCO, Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna. Starfið á vegum GRÓ er ein af meginstoðunum í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands.