Fréttir á íslensku

GRÓ tók þátt í UNESCO deginum

5 september 2022
GRÓ tók þátt í UNESCO deginum

GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu tók þátt í UNESCO deginum sem íslenska UNESCO nefndin skipulagði þann 1. september sl. Þar komu saman fulltrúar þeirra ráðuneyta, stofnana og annarra aðila sem tengjast starfi UNESCO á Íslandi á einn eða annan hátt. Dagurinn var kjörið tækifæri til að heyra af ólíku starfi sem tengist UNESCO á Íslandi, kynnast innbyrðis og skoða möguleika til frekara samstarfs. UNESCO dagurinn fór fram á Þingvöllum, sem er á Heimsminjaskrá UNESCO.

Nína Björk Jónsdóttir, forstöðumaður GRÓ, kynnti á fundinum starf GRÓ og þjálfunarprógrammanna fjögurra sem eru starfrækt á vegum miðstöðvarinnar en fulltrúar allra þeirra voru viðstaddir fundinn. Þá sagði hún frá stærstu verkefnunum framundan, eins og þeirri vinnu sem nú er á lokametrunum við að setja miðstöðinni breytingakenningu (e. Theory of change). Þar er um að ræða aðferðafræði við árangursstjórnun sem UNESCO leggur áherslu á í sínu starfi. Í breytingakenningunni er skýrt frá því hvernig GRÓ mun vinna markvisst að þeim langtímaáhrifum sem stefnt er að með starfinu. Samhliða verður settur fram árangursrammi fyrir GRÓ, þar sem greint er frá því hvernig árangur af einstaka þáttum í starfinu verður mældur. Einnig mun GRÓ setja fram stefnumörkun um áherslur í starfinu næstu fimm árin.

Dr. Sjöfn Vilhelmsdóttir, forstöðumaður Landgræðsluskóla GRÓ, sagði frá samstarfi við verkefnið Maðurinn og lífhvolfið innan UNESCO (e. Man and the Biosphere - MAB). GRÓ mun árlega á tímabilinu 2022-2026 bjóða tveimur ungum sérfræðingum sem starfa hjá svæðum í þróunarríkjum sem tilheyra MAB netverkinu til að taka þátt í sex mánaða þjálfuninni á Íslandi. Sjöfn sagði einnig frá þátttöku Landgræðsluskólans í hliðarviðburði á ársfundi MAB, sem fram fór í höfuðstöðvum UNESCO í París í júní sl.

Dr. Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Jafnréttisskóla GRÓ, sagði frá samstarfi við UNESCO um gerð netnámskeiðs sem mun bera heitið Karlmenn, drengir og karlmennskur (Men, Boys and Masculinities). Námskeiðið verður fjórða netnámskeiðið sem Jafnréttisskólinn framleiðir innan edX netverksins og er stefnt að því að hleypa því af stokkunum í ágúst á næsta ári. Netnámskeið af þessu tagi eru öllum opin og hægt að sækja þau án endurgjalds. Þannig gera þau fólki sem hefur takmarkaðan aðgang að menntun tækifæri til mennta sig. Námskeiðin sem Jafnréttisskólinn hefur þegar sett á netið hafa verið mjög vinsæl og hefur stór hluti skráðra þátttakenda komið frá þróunarlöndum.

Meðal annarra sem fluttu erindi á UNESCO deginum voru Auðbjörg Halldórsdóttir, sendifulltrúi í utanríkisráðuneytinu, sem sagði frá setu Íslands í framkvæmdastjórn UNESCO árin 2021-2025 og starfi Íslands innan UNESCO. Þá tóku einnig til máls fulltrúar Þjóðgarðsins á Þingvöllum, Vigdísarstofnunar, UNESCO skólanna, og Kötlu og Reykjaness jarðvanga.