Fréttir á íslensku

Samstarfi á sviði náttúruvísinda rætt á UNESCO fundi í Malasíu

23 maí 2024
Samstarfi á sviði náttúruvísinda rætt á UNESCO fundi í Malasíu

Starf GRÓ — Þekkingarmiðstöðvar þróunarsvinnu á sviði jarðhita, fiskveiða, landgræðslu og jafnréttismála var kynnt á fundi miðstöðva á sviði náttúruvísinda sem starfa undir merkjum UNESCO sem fram fór í Kuala Lumpur í Malasíu dagana 15-17. maí sl.

Alls tóku 35 miðstöðvar frá 24 löndum þátt í fundinum sem var mikilvægt tækifæri fyrir GRÓ til að kynna starf GRÓ þjálfunaráætlananna fjögurra, fræðast um starf annarra miðstöðva og kanna möguleika til samstarfs.

GRÓ er ein af 129 miðstöðvum sem starfa undir merkjum UNESCO sem svokallaðar “Category 2” stofnanir. Starfa 64 þeirra á sviði náttúruvísinda en miðstöðvarnar sem komu saman í Malasíu starfa allar á því sviði. GRÓ er eina C2C miðstöðin sem starfar þvert á málaefnasvið UNESCO, en þrír af GRÓ skólunum fjórum tengjast náttúruvísindum.

Forstöðumaður GRÓ, Nína Björk Jónsdóttir, tók þátt í pallborðsumræðum um starf miðstöðvanna til að bregðast við þeim ógnum sem að jörðinni steðja, einkum aðgerðum til að draga úr loftslagsbreytingum og standa vörð um líffræðilegan fjölbreytileika. Þar kynnti hún starf GRÓ skólanna fjögurra, með sérstaka áherslu á þjálfunaráætlanirnar þrjár sem starfa á sviði náttúruvísinda: Jarðhitaskólann, Sjávarútvegsskólann og Landgræðsluskólann. Miðstöðvarnar sem sóttu fundinn munu halda áfram að skoða tækifæri til samstarfs og til að læra hver af annarri.