Fréttir á íslensku

GRÓ nemendur ræða mikilvægi sjálfbærrar þróunar við forseta Íslands á Bessastöðum

20 August 2025
GRÓ nemendur ræða mikilvægi sjálfbærrar þróunar við forseta Íslands á Bessastöðum

Nemendur Jarðhitaskóla og Landgræðsluskóla GRÓ, sem og starfsmenn GRÓ miðstöðvarinnar og skólanna tveggja, voru boðnir að Bessastöðum þann 18. ágúst sl. til fundar við Höllu Tómasdóttur forseta Íslands. Heimsóknin var einstakt tækifæri fyrir nemendurna til að eiga beint samtal við forseta Íslands um sjálfbæra þróun, reynslu þeirra af þjálfuninni á vegum GRÓ á Íslandi og hvernig hún mun nýtast þeim í starfi þeirra heima fyrir.

Halla Tómasdóttir forseti bauð hópinn velkominn til Bessastaða og ræddi mikilvægi samtals, jafnréttismála og fjallaði sérstaklega um mikilvægi þess að efla jarðhitanýtingu og vernda og endurheimta vistkerfi sem eiga undir högg að sækja.

Nína Björk Jónsdóttir, forstöðumaður GRÓ – Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, þakkaði forsetanum fyrir að taka á móti hópnum og sagði frá því hvernig útskrifaðir nemendur GRÓ sem nú eru samtals yfir 1.800 sérfræðingar á sviði jarðhita, landgræðslu, jafnréttis og sjávarútvegs vinna að framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um heim allan.

Bjarni Richter, forstöðumaður Jarðhitaskóla GRÓ, fjallaði um sögu skólans sem bauð fyrstu nemendum til Íslands árið 1979. Esther Kimani, nemandi Jarðhitaskólans frá Kenía sagði frá reynslu sinni af þjálfuninni og hvernig skólinn hefur verið í lykilhlutverki við að styðja við jarðhitaþróun í heimalandi hennar, en árið 2018 fór Kenía fram úr Íslandi þegar kemur að uppsettu afli í jarðhita.

Sjöfn Vilhelmsdóttir, forstöðumaður Landgræðsluskóla GRÓ, fjallaði um mikilvægi endurheimtar vistkerfa og hvernig reynsla Íslands af landgræðslu geti nýst öðrum löndum sem standa frammi fyrir landeyðingu og hnignun vistkerfa. Maxwell Kudzala frá Malaví fjallaði um þátttöku sína í náminu og undirstrikaði hvernig kynjamisrétti getur haft félagsleg, efnahagsleg og vistfræðileg áhrif hvað varðar nýtingu náttúruauðlinda.