News

Friðrik Jónsson tekur við sem forstöðumaður GRÓ

1 október 2020
Nýr forstöðumaður GRÓ, Friðrik Jónsson
Nýr forstöðumaður GRÓ, Friðrik Jónsson

Friðrik Jónsson tók við í dag sem forstöðumaður GRÓ, þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu. Hann tekur við af Bryndísi Kjartansdóttur sem hefur verið skipuð skrifstofustjóri öryggis- og varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

Síðastliðið ár hefur Friðrik gegnt stöðu fulltrúa Íslands í embættismannanefnd Norðurskautsráðsins (Senior Arctic Official) og mun sinna því mikilvæga hlutverki áfram samhliða nýju starfi, eða allt þar til formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu lýkur í lok maí 2021.

Áður gegndi hann til skamms tíma stöðu deildarstjóra úttekta og eftirlits á þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Þar á undan var hann fulltrúi Íslands í hermálanefnd Atlantshafsbandalagsins frá 2014-2019, þar af síðasta árið sem forseti (e. Dean) nefndarinnar, fyrstur borgaralegra fulltrúa til að bera þann titil. Frá 2011 til 2015 starfaði Friðrik sem ráðgjafi aðal­full­trúa Norð­ur­landa og Eystra­salts­ríkja í stjórn Alþjóða­bank­ans í Washington DC. Sumarið 2009 fór hann til starfa í Afganistan, fyrst hjá alþjóðaliðinu í Afganistan (ISAF) í 12 mánuði sem aðstoðarforstöðumaður þróunarmála hjá sérstakri stöðugleika-deild. Í framhaldi af því gengdi hann stöðu samræmingaraðila fyrir þróunarmál hjá sendisveit Sameinuðu þjóðanna í Afganistan (UNAMA). Friðrik hóf feril sinn hjá íslensku utanríkisþjónustunni í janúar 1996 og hefur starfað á alþjóða-, varnarmála-, viðskipta-, og þróunarmálaskrifstofum ráðuneytisins. Fyrsta skipun hans erlendis var við sendiráð Íslands í Bandaríkjunum árið 1998 og gengdi hann stöðu fyrsta sendiráðsritara og varnarmálafulltrúa. Frá 2002 til 2006 starfaði Friðrik sem staðgengill sendiherra við sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn. 

17. september 2020 var Friðrik kjörinn formaður Félags háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins (FHSS) til tveggja ára.

Friðrik er með MA gráðu í alþjóðasamskiptum og herkænskufræðum auk MBA í alþjóðaviðskiptum og BA gráðu í alþjóða- og ríkjasamskiptum. Hann er kvæntur Elínborgu Þóru Þórbergsdóttur og eiga þau fjögur börn, tvö barnabörn og tvo hunda. Helstu áhugamál Friðriks eru söngur, gítarleikur, lestur, hjólreiðar og göngutúrar með hundunum sínum tveimur. Hann leikur ekki golf.