Fréttir á íslensku

GRÓ tekur í notkun húsnæði fyrir nemendur á Grensásvegi

1 september 2022
GRÓ tekur í notkun húsnæði fyrir nemendur á Grensásvegi

GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu hefur tekið á leigu húsnæði að Grensásvegi 14 til að hýsa nemendur GRÓ, gestakennara og framhaldsnemendur á höfuðborgarsvæðinu. Fyrstu íbúar hússins, nemendur Jarðhitaskólans, flytja inn mánudaginn 5. september. Í húsinu er aðstaða til að hýsa allt að 28 manns og að auki góð félagsaðstaða fyrir nemendur. Með húsinu skapast því möguleikar fyrir nemendur GRÓ að kynnast og eiga aukin samskipti.

GRÓ starfrækir fjögur þjálfunarprógrömm á Íslandi undir merkjum UNESCO, Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, þ.e. Jarðhitaskólann, Sjávarútvegsskólann, Landgræðsluskólann og Jafnréttisskólann. Öll vinna þau að því að efla getu stofnana og einstaklinga í þróunarríkjunum á sviðum þar sem Ísland býr yfir sérþekkingu og hafa um áratugaskeið verið ein af meginstoðum í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands.