Fréttir á íslensku

Laugardalslaug kynnir íslenska sundlaugarmenningu fyrir nemendum GRÓ

11 nóvember 2022
Laugardalslaug kynnir íslenska sundlaugarmenningu fyrir nemendum GRÓ

Nemendahópurinn sem nú stundar nám við Sjávarútvegsskóla GRÓ heimsótti Laugardalslaug á dögunum, þar sem Árni Jónsson, forstöðumaður laugarinnar, tók á móti hópnum og fræddi þau um laugina og íslenska sundlaugamenningu. Eftir kynninguna var hópnum boðið í sund.

Var þetta fyrsti hópurinn á vegum GRÓ sem fékk slíka fræðslu, en GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu og Laugardalslaug ætla að bjóða nýjum nemendahópum sem koma til náms hjá GRÓ þjálfunaráætlunum fjórum, Jafnréttisskólanum, Jarðhitaskólanum, Landgræðsluskólanum og Sjávarútvegsskólanum, að heimsækja laugina við upphaf námsdvalar á Íslandi. Þannig fá nemendur strax við upphafi dvalar möguleika á að kynnast lauginni og stendur einnig til að bjóða nemendum sem ekki kunna að synda upp á sundtíma.

GRÓ nemendur hafa í könnunum við lok námsdvalar nefnt hversu valdeflandi það var að kynnast íslenskri sundlaugamenningu, eins og kemur fram í þessari tilvitnun í svör afrískrar konu sem var hér við nám og sem vitnað er til í ársskýrslu GRÓ fyrir árin 2000-2001.

„Sundlaugarnar voru opinberun fyrir mér. Mér þótti það hræðileg tilhugsun að þurfa að afklæðast fyrir framan ókunnuga og hvað þá fólk sem ég þekki. Ég vildi samt upplifa möguleikann á jarðhitanýtingu fyrir sundlaugar, en fólk fer jafnvel í sund á Íslandi á veturna, svo mér fannst ég vera tilneydd. Ég er glöð að ég lét vaða því það var ekkert mál eftir að maður var kominn inn. Enginn tekur eftir manni. Maður uppgötvar að líkami manns er ekki ólíkur líkömum annarra og öðlast aukið sjálfsöryggi með eigin líkama. Mér finnst að allir eigi að þurfa að afklæðast fyrir framan aðra, eins og Íslendingar gera frá barnæsku. Það myndi eflaust hjálpa fólki sem er óánægt með líkama sinn til að öðlast meira sjálfsöryggi, eins og Íslendingar virðast hafa. Íslendingar eru mjög sjálfsöruggt fólk. Margir í Afríku eru einnig hræddir við vatn. Það er ómetanlegt að læra að synda og geta bjargað sér frá drukknun. Ég mun kenna börnunum mínum að synda eftir að ég kem heim, og mun þá loksins geta farið með þau á ströndina án þess að hafa áhyggjur.“