Fréttir á íslensku

Nína Björk Jónsdóttir nýr forstöðumaður GRÓ

16 júní 2021
Nína Björk Jónsdóttir, nýr forstöðumaður GRÓ
Nína Björk Jónsdóttir, nýr forstöðumaður GRÓ

Nína Björk Jónsdóttir hefur tekið við sem forstöðumaður GRÓ, þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu. Hún tekur við af Friðrik Jónssyni, sem var kjörinn formaður BHM 27. maí sl.

Nína Björk hefur starfað fyrir utanríkisþjónustuna frá árinu 2005. Síðustu tvö ár hefur hún verið forstöðumaður viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins. Árin 2016-2019 var hún varafastafulltrúi í fastanefnd Íslands í Genf, sem fer með fyrirsvar gagnvart Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA), Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO), skrifstofu SÞ í Genf (UNOG) og öðrum alþjóðastofnunum sem hafa aðsetur í borginni. Árin 2012-2016 starfaði hún við sendiráð Íslands í París. Hún var varafastafulltrúi gagnvart OECD þar sem hún undirbjó m.a. aðild Íslands að Þróunarsamvinnunefnd OECD (DAC). Hún var einnig staðgengill sendiherra (frá 2013) og varafastafulltrúi gagnvart UNESCO og Evrópuráðinu frá 2014. Árin 2009-2011 starfaði Nína Björk samtímis á auðlindaskrifstofu og mannréttindaskrifstofu ráðuneytisins. Hún sat í samningateymi Íslands í loftslagsviðræðum á vegum UNFCCC og fór einnig með jafnréttismál. Árin 2005-2008 starfaði hún á viðskiptasviði utanríkisráðuneytisins og sat í undirnefndum II, III og IV og hafði umsjón með rekstri Samningsins um Evrópska efnahagssvæðið á þeim sviðum. Áður en Nína Björk hóf störf hjá utanríkisþjónustunni starfaði hún sem fréttamaður á Stöð 2 og Bylgjunni 2000-2001 og blaðamaður á Morgunblaðinu 2001-2004. Þá var hún friðargæsluliði á vegum Íslensku friðargæslunnar í Norður-Makedóníu í 9 mánuði árið 2003 þar sem hún var fjölmiðlafulltrúi við Concordiu, fyrstu friðargæsluaðgerð ESB.

Nína Björk er með MA gráðu í alþjóðastjórnmálum og öryggisfræðum frá Bradford háskóla, próf í hagnýtri fjölmiðlun frá Háskóla Íslands og BA gráðu í frönsku og stjórnmálafræði frá sama skóla. Nína Björk er einnig höfundur bókarinnar Íslandsdætra sem kom út árið 2020 hjá Sölku og annar tveggja höfunda How to Live Icelandic sem kemur út hjá forlaginu White Lion Publishing síðar á þessu ári.