Fréttir á íslensku

Nýr árangursrammi GRÓ mikilvægur til að meta áhrifin af starfinu

13 júlí 2023
Nemendur jarðhitaskólans við borholu á Ölkelduhálsi, eftir nokkuð vætusaman göngutúr.
Nemendur jarðhitaskólans við borholu á Ölkelduhálsi, eftir nokkuð vætusaman göngutúr.

GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu hefur lokið við að móta árangursramma (e. Results Framework) sem notaður verður til að mæla árangur af starfi GRÓ skólanna fjögurra með samræmdum hætti. Með því að skrá á einn stað upplýsingar um allar helstu lykiltölur í starfi skólanna, og meta gæði námsins og ánægju nemenda og samstarfsstofnana með samræmdum spurningum, verður auðveldara að fylgjast með og meta áhrifin af starfi GRÓ. Þessar niðurstöður munu þannig nýtast í framtíðinni við að þróa og efla starfið.

Í árangursrammanum eru sett fram árangursviðmið fyrir hvern frammistöðuvísi sem GRÓ vinnur að. Þá er útskýrt hvaða mæliaðferðir verði notaðar til að fylgjast með niðurstöðum af starfinu og greint frá því hvernig gengið verði úr skugga um að árangurinn sem stefnt var að hafi náðst.

Árangursramminn er hluti af breytingakenningu GRÓ (e. Theory of Change) sem er sú aðferðarfræði sem Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) notar við árangursstjórnun, en GRÓ starfar undir merkjum þeirrar stofnunar. Vinna við mótun breytingakenningarinnar hefur staðið yfir allt frá stofnun GRÓ, í góðu samstarfi GRÓ miðstöðvarinnar og skólanna fjögurra, en skólarnir hafa fram til þessa notað ólíkar aðferðir við að meta árangur af starfinu.

Næstu mánuði verður unnið að því að safna upplýsingum um viðmið árangursrammans, í þeim tilfellum sem þær liggja ekki nú þegar fyrir. Eins verða spurningakannanir sem lagðar eru fyrir nemendur og samstarfsstofnanir samræmdar, svo hægt verði að mæla starfið á yfirstandandi ári út frá árangursrammanum.

Einnig verður árangurinn af starfi GRÓ áfram skoðaður með sjálfstæðum úttektum sem utanríkisráðuneytið lætur gera en áætlað er að næsta slíka úttekt fari fram árið 2024. Meginniðurstöður síðustu úttektar, sem gerð var árið 2017 af Niras, voru að allar þjálfunaráætlanirnar fjórar hafi skilað mikilvægum árangri hvort sem litið er til áhrifa á samstarfslönd, héruð, stofnanir eða þá einstaklinga sem nutu þjálfunarinnar.