Fréttir á íslensku

Stuðningur við útskrifaða nemendur ræddur á GRÓ vinnustofu

27 október 2023
GRÓ vinnustofa 2023 - Þátttakendur
GRÓ vinnustofa 2023 - Þátttakendur

Þema vinnustofu GRÓ — Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu árið 2023 var stuðningur við útskrifaða nemendur.

Rætt var hvernig miðstöðin geti aukið þann stuðning eftir að nemendur snúa aftur til síns heima og hvernig hægt er að skapa tækifæri fyrir þau til samstarfs, þvert á öll fjögur málefnasvið GRÓ. Vinnustofan í ár var liður í mótun stefnu um hvernig GRÓ geti eflt stuðning við útskrifaða nemendur GRÓ skólanna fjögurra og stutt þá í að miðla af þekkingu sinni, eftir að heim er komið, og vinna að framgangi Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Tæplega 1.700 nemendur hafa nú útskrifast úr 5-6 mánaða námi frá GRÓ skólunum fjórum, á þeim samtals 100 árum sem skólarnir hafa starfað. Skólarnir eiga allir í virku samstarfi við sína nemendur, en með því að starfrækja skólana undir hatti GRÓ skapast einnig tækifæri til að gera nemendum kleift að vinna þvert á málefnasviðin, sem og til að vinna með UNESCO, en GRÓ starfar undir merkjum þeirrar stofnunar.

Vinnustofan var haldin í utanríkisráðuneytinu þann 25. október sl. Þar komu saman fulltrúar úr stjórn GRÓ, starfsfólk GRÓ miðstöðvarinnar og GRÓ skólanna fjögurra, sem og starfsfólk utanríkisráðuneytisins sem starfar á sviði þróunarsamvinnu, auk starfsfólks íslenskra sendiráða í samstarfslöndum GRÓ.

Nína Björk Jónsdóttir, forstöðumaður GRÓ — Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, og Jón Karl Ólafsson, formaður stjórnar GRÓ, buðu þátttakendur velkomin. Þá sögðu fulltrúar GRÓ skólanna frá því hvernig þau vinna með og styðja sína nemendur áfram eftir útskrift. Erindi héldu Julie Ingham, forstöðumaður Sjávarútvegsskóla GRÓ, Málfríður Ómarsdóttir, verkefnastjóri í Jarðhitaskóla GRÓ, dr. Sjöfn Vilhelmsdóttir, forstöðumaður Landgræðsluskóla GRÓ og Védís Ólafsdóttir, verkefnastjóri í Jafnréttisskóla GRÓ. Sérstakur gestur tók þátt í dagskránni í ár. Það var Ulla Næsby Tawiah, forstöðumaður Danida Fellowship Centre, miðstöðvar sem rekin er á vegum danskrar þróunarsamvinnu og sem svipar um margt til GRÓ, en hún sagði frá því hvernig DFC styður nemendur sína eftir útskrift. Vinnustofunni lauk með því að umræðuhópar ræddu ólíka þætti sem snúa að stuðningi við útskrifaða nemendur.

Eitt af markmiðum GRÓ og stefnumiðum til ársins 2027 er að efla stuðning og samstarf við útskrifaða nemendur og var vinnustofan liður í þróun stefnu um þann hluta starfseminnar.