News Fréttir á íslensku

Tuttugu og þrír sérfræðingar útskrifast frá Jarðhitaskóla GRÓ

21 október 2022
Tuttugu og þrír sérfræðingar útskrifast frá Jarðhitaskóla GRÓ

Tuttugu og þrír sérfræðingar frá tólf löndum útskrifuðust frá Jarðhitaskóla GRÓ í gær. Hópurinn hefur dvalið á Íslandi við nám síðustu sex mánuði og er sá 43. sem lýkur námi við skólann. Alls hafa nú 766 nemendur frá 65 löndum lokið námi frá Jarðhitaskólanum. Þá hafa 79 lokið meistaranámi og fimm doktorsnámi við íslenska háskóla með stuðningi frá skólanum. Einnig hefur Jarðhitaskólinn haldið fjöldamörg styttri námskeið á vettvangi sem og á netinu.

Í fyrsta sinn voru nemendur frá Perú í útskriftarhópnum, en áhersla Jarðhitaskólans á uppbyggingu jarðhita í rómönsku Ameríku hefur aukist síðustu ár. Miklar frosthörkur yfir köldustu vetrarmánuðina ógna mannslífum í byggðum í Andesfjallgarðinum en þar er að finna jarðhita sem nýta mætti samfélögunum á svæðinu til hagsbóta. Í ár voru einnig nemendur frá Afríku, Asíu og Karabíska hafinu í hópnum. Sérfræðingarnir halda nú til sinna heimalanda, en allir starfa þeir hjá samstarfsstofnunum Jarðhitaskólans eða fyrirtækjum á sviði orkumála.

Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri hélt ávarp við útskriftina og færði útskriftarhópnum hamingjuóskir utanríkisráðherra, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur. Einnig héldu erindi Bjarni Gautason, sviðsstjóri vöktunar og fræðslu ÍSOR sem er hýsistofnun Jarðhitaskólans, Guðni Axelsson, forstöðumaður Jarðhitaskólans og Peter Ndirangu Maina frá Kenía sem hélt ávarp fyrir hönd nemenda. Guðni afhenti nemendum útskriftarskírteinin ásamt Nínu Björk Jónsdóttur, forstöðumanni GRÓ – Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu.

Jarðhitaskólinn hefur starfað frá árinu 1979 og er ein fjögurra þjálfunaráætlana sem reknar eru undir GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu. Hinar áætlanirnar eru Jafnréttisskólinn, Landgræðsluskólinn og Sjávarútvegsskólinn. Eftir útskrift Jarðhitaskólans í gær hafa nú alls 1.578 nemendur frá yfir 100 löndum lokið þjálfun hér á Íslandi á vegum þjálfunaráætlana GRÓ.

GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu starfar undir merkjum UNESCO, Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, og hefur frá upphafi verið ein af helstu stoðum í íslenskri þróunarsamvinnu. Miðstöðin starfar á þeim sviðum þar sem Ísland hefur sérþekkingu sem getur nýst þróunarlöndum við að stuðla að framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.