Útskrift Jarðhitaskóla GRÓ
Jarðhitaskóli GRÓ útskrifaði 23 sérfræðinga frá 16 löndum í síðustu viku, í 46. útskrift skólans frá stofnun hans árið 1978. Nemendurnir komu frá Afríku, Asíu, S-Ameríku og ríkjum í Karabíska hafinu. Í fyrsta sinn sótti nemandi frá Bútan skólann. Öll voru þau tilnefnd til þátttöku í náminu af hálfu vinnuveitenda sinna vegna mikilvægrar stöðu þeirra heima fyrir við að þróa og auka notkun endurnýjanlegra orkugjafa.
Nú hafa samtals 839 nemendur útskrifast frá Jarðhitaskólanum og þá hafa 1.839 nemar útskrifast úr öllum fjórum skólunum sem starfa á vegum GRÓ Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, sem er ráðuneytisstofnun í utanríkisráðuneytinu sem starfar undir merkjum UNESCO. Hinir skólarnir þrír starfa á sviði jafnréttis, landgræðslu og sjávarútvegs.
Bjarni Richter, forstöðumaður Jarðhitaskóla GRÓ, bauð gesti velkomna. Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, flutti ávarp þar sem hann óskaði nemendum til hamingju og hvatti þau til að nýta þjálfunina til góðra verka heima fyrir. Einnig bar hann nemendum kveðju utanríkisráðherra, sem útskriftarhópurinn hafði hitt viku áður, á fyrsta viðburði af fjórum sem GRÓ og utanríkisráðuneytið halda í samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og þar sem farið er yfir áhrifin af starfi hvers GRÓ skólans.
Edgar Elieza Akilimali frá Tansaníu flutti ávarp fyrir hönd nemendahópsins. Hann sagði þá upplifun að koma til Íslands og taka þátt í náminu hafa haft umbreytandi áhrif. „Þessi reynsla hefur eflt okkur öll með þekkingu og færni á heimsmælikvarða á sviði jarðhita. Ég get með sanni sagt að við erum ekki þau sömu og þegar við komum hingað,“ sagði hann.
Hann lýsti jafnframt sterkri samstöðu og vináttu sem myndast hafði meðal hópsins. „Við komum til Íslands frá sextán löndum, hvert með sína reynslu, sögur og sjónarhorn, en sameinuð af forvitni, metnaði og sameiginlegri framtíðarsýn um sjálfbæra þróun með nýtingu jarðhita. Á þessum sex mánuðum urðum við meira en samstarfsfólk; við urðum að fjölskyldu,“ sagði Edgar og hvatti samnemendur sína til að halda áfram að styðja hvert annað sem hluti af alþjóðlegu neti jarðhitafólks.
Árni Magnússon, forstjóri ÍSOR, sem hýsir Jarðhitaskólann, flutti ávarp þar sem hann kvaddi nemendur og þakkaði þeim fyrir samstarfið. Bjarni Richter og Nína Björk Jónsdóttir, forstöðumaður GRÓ, afhentu nemendum prófskírteinin.
GRÓ óskar nemendunum velfarnaðar og þakkar samfylgdina síðustu sex mánuði.
Myndir teknar af Guðmundi F. Jónssyni / ÍSOR