Fréttir á íslensku

GRÓ tók þátt í UNESCO-deginum 2023

11 október 2023
Þátttakendur á GRÓ-deginum 2023, fyrir framan Eddu, hús íslenskunnar
Þátttakendur á GRÓ-deginum 2023, fyrir framan Eddu, hús íslenskunnar

Fulltrúar frá GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu tóku þátt í UNESCO deginum sem haldinn var í fjórða sinn, þann 22. september sl., að þessu sinni í Eddu – húsi íslenskunnar. Þar kom saman fjöldi aðila á Íslandi sem tengjast UNESCO - Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Aðalfyrirlesari UNESCO-dagsins í ár var James Bridge, framkvæmdastjóri og aðalritari bresku UNESCO landsnefndarinnar. Hann kynnti á fundinum nýútkomna kortlagningu UNESCO -staða í Bretlandi og úttekt bresku landsnefndarinnar á gildi og verðmæti UNESCO á Bretlandseyjum. UNESCO-aðilar á Íslandi hafa einmitt sýnt því mikinn áhuga að gerð sé sambærileg kortlagning hér á landi.

Fulltrúar fjölda annarra UNESCO-aðila og verkefna kynntu einnig nýleg verkefni á fundinum og hvað væri helst að frétta af vettvangi þeirra. Á meðal þeirra voru kynningar frá Reykjanesjarðvangi og Kötlu jarðvangi, erindi um samstarf norrænna heimsminjastaða og fréttir fluttar af undirbúningi fyrsta UNESCO-vistvangsins á Snæfellsnesi. Einnig var kynntur undirbúningur að tilnefningu sundlaugarmenningar á Íslandi á lista UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf, erindi flutt um samvinnu um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í UNESCO-skólum á Íslandi auk þess sem fulltrúar frá fastanefnd Íslands gagnvart UNESCO ræddu stöðuna á alþjóðasviðinu, en Ísland á sæti í framkvæmdastjórn UNESCO tímabilið 2021-2025.

Að lokum var kynnt ný sýning um Vigdísi Finnbogadóttur, velgjörðarsendiherra UNESCO og áform um sýningu handrita Árna Magnússonar í Eddu en handritasafnið er á skrá UNESCO yfir Minni heimsins.

Sjá einnig umfjöllun um UNESCO-daginn á vef Stjórnarráðsins og frétt GRÓ um UNESCO-daginn á síðasta ári (2022) þar sem forstöðumaður GRÓ – Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, ásamt forstöðumönnum Jafnréttisskólans og Landgræðsluskólans kynntu starfsemi sína.